top of page

Um okkur

__

IMG_8102.jpeg

Sagan okkar

Þann 2. mars 2025 var Lúðrasveit Mosfellsbæjar formlega stofnuð.

Aðdragandann má rekja til þess þegar gamlir félagar úr Skólahljómsveit Mosfellsbæjar komu reglulega saman á æfingum vorið 2024 til þess að undirbúa tónleika á 60 ára afmæli Skólahljómsveitarinnar. Mörg þeirra höfðu lítið sem ekkert snert hljóðfæri svo árum skipti, en gleðin við að spila saman í hljómsveit rifjaðist upp og ákveðið var í kjölfar afmælistónleikanna að halda áfram reglulegum æfingum haustið 2024.

 

Fékk hljómsveitin æfingaaðstöðu hjá Skólahljómsveitinni í Varmárskóla og eftir nokkurra mánaða æfingar var ákveðið að tími væri kominn á að stofna formlega Lúðrasveit Mosfellsbæjar. Strax um vorið 2025 hélt Lúðrasveitin sína fyrstu vortónleika og voru þeir haldnir í Hlégarði í góðu samstarfi við Varmárkórinn. ​

 

Tilgangur Lúðrasveitarinnar er sviðslistir og tónlistarstarf, að spila saman í góðum félagsskap og vera stuðningur við Skólahljómsveit Mosfellsbæjar en eins og áður sagði er það áratugalöng starfsemi Skólahljómsveitarinnar sem upphaflega grundvallar félagsskapinn. Aðgangur að félagsskapnum er þó síður en svo bundinn við það og eru nú þegar margir félagar sem eiga bakgrunn í öðrum lúðrasveitum eða hafa byrjað tónlistarnám sitt seinna á lífsleiðinni. ​

 

Mikill metnaður er til þess að standa vel að starfinu, með fjölbreyttu og skemmtilegu lagavali og með reglulegu tónleikahaldi. Félagar voru við stofnun í kringum 25 talsins og jafnt og þétt bætist í hópinn. Mikill áhugi er innan félagsins á að taka reglulega þátt í tónlistarflutningi/tónleikahaldi og hafa með því bæði tilgang og markmið með starfsemi félagsins. Eins eru tækifæri til samstarfs og stuðnings við Skólahljómsveit Mosfellsbæjar og að bæta í flóru fjölbreytts tónlistarlífs Mosfellsbæjar.

 

Áhugasamir hljóðfæraleikarar eru hvattir til þess að mæta á æfingu, jafnvel þótt einhver tími sé liðinn síðan spilað var á hljóðfæri síðast. Gömul kunnátta rifjast fljótt upp þegar hljóðfærið er komið í hendurnar. Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag, og fátt eflir andann eins og góð tónlist og enn betri félagsskapur, en Lúðrasveitin hefur frá upphafi lagt áherslu á tengsl sín við bæinn þar sem rætur starfseminnar liggja. ​

 

Baldur Rafnsson er stjórnandi Lúðrasveitarinnar og stjórn félagsins mynda Hlín Ólafsdóttir, Ragnar Árni Sigurðarson og Lóa Björk Óskarsdóttir ásamt varamönnum.

Stjórn Lúðrasveitar Mosfellsbæjar

Styrktaraðilar

ISL_Mosfellsbaejar_COA.svg.png
bottom of page